Yndislegt kvöld!

Jæja, loksins eitt smá-blogg, sem er ekki um lopapeysur! (Kannski samt bara skjóta því inn, að metið er 10 peysur á sex vikum!!! Þ.e. persónulegt met, ég þekki alveg nokkrar, sem slá það rækilega! En ég sit samt við allan daginn, sit of mikið, veit það!) En þessa stundina sit ég á Höfn, kom hingað með Jóa, tengdasyni um miðnætti á miðvikudagskvöld og er að bíða eftir strætóí dag, föstudag um hádegi! Ástæðan: Sigrún Birna, 16 ára ömmustelpan mín var að leika og syngja í verki, sem byggt er á Bítlalögum. Kannski finnst einhverjum að nú sé hún ég orðin kolvitlaus, að leggja þetta á sig, fyrir Bítlalögin, en.... Nei, auðvitað var það stelpuskottið mitt, sem var ástæðan. Ég vissi nú alltaf að hún væri músíkölsk, en að hún hefði svona frábæra rödd, og gæti sungið eins og engill, það kom mér smá á óvart. Þegar hún söng eitt af mínum uppáhalds, frá því í gamla daga, All my Loving, þá féllu tár!!! Svo er hún bæði falleg og góð, þessi elska, dugleg ´í skólanum, (FAS) og hefur áhuga á svo mörgu, Kristján, kærastinn hennar spilaði í hljómsveitinni, sem lék undir, hann er líka frábær, og hljómsveitin spilaði eins og þar væru fagmenn að verki. Allir leikarar, söngvarar og hljómlistamenn stóðu sig með einstakri prýði, sem gerði kvöldið ógleymanlegt!!!Segið þið svo að amma gamla hefði átt að sitja heima og sjá eftir að hafa ekki farið! Ég gisti hjá Gullu minni og fjölskyldu, en skaust í morgunheimsókn til Vigdísar, tengdadóttur, í gær. Allsstaðar er tekið svo vel á móti manni, að maður er eins og heima hjá sér! Svo er ég búin að lofa, að fara út á Selfoss í byrjun maí, til að horfa á Agnesi mína (16 ára) leika með leikhópnum sínum, svo það má ljóst vera, að miklir hæfileikar leynast í barnabarnahópnum mínum! Þau eru fjögur, sem eru á aldrinum 15-17 ára, Kristján Hrafn, Sigrún Birna, Agnes og Rósa Diljá, söngfugl,ég kalla þau stundum ,,fjórburana" mína, af því að þau eru svo samrýmd og góðir vinir, þó tvær búi á Höfn og tvö í bænum. Kristján Hrafn er nýlega farinn að rappa, og er sagður vera mjög efnilegur á því sviði, en hann hefur líka fallega rödd. Þá eru ótalin öll þau sem eru eldri og yngri, alls 14, svo frábær öll, hvert á sínu sviði, og auk þess langömmustrákarnir þrír, sem eru frábærir líka! Já, ég má VÍST monta mig, svona einu sinni! Þó ég eigi nú lítinn þátt í uppeldinu á þeim. En strætó kemur eftir klukkutíma, svo ég verð að klára að pakka! Bless í bili!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband