Að fá óskir sínar uppfylltar

Já það er nú svona með óskir! Þær uppfyllast, eða uppfyllast ekki. En þegar þær gera það, þá er líka gaman að lifa. Ein ósk, sem hafði blundað í mér lengi, - já, í nokkur ár,- uppfylltist í gær. Mig var búið að dreyma um að fá gesti á bókakaffið okkar, sem ég skrifaði um síðast, og nú hafðist það. Gestirnir voru hann Svanur minn, tónlistarsnillingur, sem semur lög og syngur, spilar á allskonar hljóðfæri og semur jafnvel textana, eða ljóðin ef því er að skipta, og með honum kom hún Rósa Diljá, dóttir Ellu minnar, sem syngur svo vel og hefur vakið athygli fyrir það, þar sem hún hefur komið fram. Nú síðast í þættinum Ísland got talent, á Stöð 2. Reyndar komst hún ekki alla leið, en fékk mikið hrós frá dómurum þáttarins. Hún er 15 ára og á eflaust eftir að láta í sér heyra í framtíðinni. Þau komu sem sagt á Bókakaffið og sungu fyrir gesti, sem voru rúmlega 30. Tóku eitthvað um 10 lög, bæði íslensk og erlend, og ég veit, að minnsta kosti sumir gestirnir fóru út úr salnum með gæsahúð af hrifningu. Einn gesturinn sagði Svani, að þetta hefði alveg bjargað páskunum fyrir sig. Ég var svo glöð, tók allt upp á ipad-inn minn, en gleðin dofnaði smá, þegar ég komst að þvi, að ég hafði tekið allt upp á stillingu, sem heitir Time laps, og sýnir hálftímann á einni sekúndu, þegar maður spilar það. Svona er að vera ekki tæknisinnaðri en þetta, og athuga ekki hvað maður gerir. En ég á eftir að heyra oftar í þeim og þá klikkar þetta ekki!!! En dagurinn var yndislegur, og ég var svo stolt af þeim! Þau kölluðu sig Barn-ogbarnabarnabandið! Það gefur nú möguleika á að fleiri barnabörn bætist við í hópinn og kannski fleiri af systkinunum líka. Höldum tónleika fyrir fjölskyldu og vini í Reykjavík sem fyrst, og þá mæta ALLIR! 


Bókakaffi

Já, eiginlega hef ég ekki tíma til að skrifa núna, ég er að fara á bókakaffi! Skil eiginlega ekki, hvernig við fórum að, áður en þetta fyrirbæri komst í framkvæmd. Fullt af fólki, sem kemur og situr í rólegheitum, með handavinnu, eða ekki, einn eftirmiðdag, hálfsmánaðarlega, spjallar, hlustar á upplestur, eða söng, ef við erum heppin, fær sér bók á bókasafninu, skilar bókum. Og ekki má gleyma kaffinu, Kvenfélagið Eygló sér um það, skiftast é að laga kaffi og koma með kökur. Þetta er frábært, og laðar að fólk á öllum aldri, líka úr nágraannasveitum. Maður hlakkar alltaf til að fara á bókakaffi. Í dag ætlar hún Inga á Sauðhúsvelli að koma og lesa fyrir okkur sögu, eftir hálfan mánuð fáum við leynigesti, ekkert nema gaman!!!


Snjór, snjór, snjór!

Hvenær í ósköpunum ætlar þessi vetur að taka enda? Ég er bara alveg búin að fá nóg! Þegar ég vaknaði í morgun, var komin jólasnjór, 10 cm djúpur amk, og það er kominn mars! Sem betur fer á hann ekki að vera lengi, en er á meðan er, og ég er hætt að hafa gaman af þessu. Já, allir mínir vinir, ég er búin að fá tölvuna mína í netsamband!!! Þökk sé henni Öllu, nágrannakonu minni! Tölvan kom úr uppfærslu um áramótin, en neitaði að tengjast netinu. Ég reyndi allt, en ekkert gekk. Svo fór ég með hana til Hornafjarðar, og þar voru engin vandamál. Þá loksins datt mér í hug, að biðja Öllu að líta á þetta, og það gekk! Hún segist reyndar ekki vita hvað hún hafi gert, sem kom vitinu fyrir tölvuskömmina, en ég er bara ánægð að hafa fengið hana aftur. I-paddinn er að vísu góður, og bjargaði mér heilmikið, en getur ekki allt. Svo var líka komið mikið af nýju í fartölvuna, svo ég var svolítið pirruð að geta ekki prófað það. En nú er allt gott, og ég prjóna og prjóna, og tek svo tölvupásur á milli! Bless í bili.


Yndislegt kvöld!

Jæja, loksins eitt smá-blogg, sem er ekki um lopapeysur! (Kannski samt bara skjóta því inn, að metið er 10 peysur á sex vikum!!! Þ.e. persónulegt met, ég þekki alveg nokkrar, sem slá það rækilega! En ég sit samt við allan daginn, sit of mikið, veit það!) En þessa stundina sit ég á Höfn, kom hingað með Jóa, tengdasyni um miðnætti á miðvikudagskvöld og er að bíða eftir strætóí dag, föstudag um hádegi! Ástæðan: Sigrún Birna, 16 ára ömmustelpan mín var að leika og syngja í verki, sem byggt er á Bítlalögum. Kannski finnst einhverjum að nú sé hún ég orðin kolvitlaus, að leggja þetta á sig, fyrir Bítlalögin, en.... Nei, auðvitað var það stelpuskottið mitt, sem var ástæðan. Ég vissi nú alltaf að hún væri músíkölsk, en að hún hefði svona frábæra rödd, og gæti sungið eins og engill, það kom mér smá á óvart. Þegar hún söng eitt af mínum uppáhalds, frá því í gamla daga, All my Loving, þá féllu tár!!! Svo er hún bæði falleg og góð, þessi elska, dugleg ´í skólanum, (FAS) og hefur áhuga á svo mörgu, Kristján, kærastinn hennar spilaði í hljómsveitinni, sem lék undir, hann er líka frábær, og hljómsveitin spilaði eins og þar væru fagmenn að verki. Allir leikarar, söngvarar og hljómlistamenn stóðu sig með einstakri prýði, sem gerði kvöldið ógleymanlegt!!!Segið þið svo að amma gamla hefði átt að sitja heima og sjá eftir að hafa ekki farið! Ég gisti hjá Gullu minni og fjölskyldu, en skaust í morgunheimsókn til Vigdísar, tengdadóttur, í gær. Allsstaðar er tekið svo vel á móti manni, að maður er eins og heima hjá sér! Svo er ég búin að lofa, að fara út á Selfoss í byrjun maí, til að horfa á Agnesi mína (16 ára) leika með leikhópnum sínum, svo það má ljóst vera, að miklir hæfileikar leynast í barnabarnahópnum mínum! Þau eru fjögur, sem eru á aldrinum 15-17 ára, Kristján Hrafn, Sigrún Birna, Agnes og Rósa Diljá, söngfugl,ég kalla þau stundum ,,fjórburana" mína, af því að þau eru svo samrýmd og góðir vinir, þó tvær búi á Höfn og tvö í bænum. Kristján Hrafn er nýlega farinn að rappa, og er sagður vera mjög efnilegur á því sviði, en hann hefur líka fallega rödd. Þá eru ótalin öll þau sem eru eldri og yngri, alls 14, svo frábær öll, hvert á sínu sviði, og auk þess langömmustrákarnir þrír, sem eru frábærir líka! Já, ég má VÍST monta mig, svona einu sinni! Þó ég eigi nú lítinn þátt í uppeldinu á þeim. En strætó kemur eftir klukkutíma, svo ég verð að klára að pakka! Bless í bili!  


Prjónafréttir

Nú er langt liðið frá síðasta bloggi! Hver má líka vera að því að skrifa eitthvað bull, þegar svona háalvarlegt mál er á dagskrá! Já, ég er að tala um LOPAPEYSUR! Ég veit að allir halda að ég sé að skrökva, þegar ég segi að ég sé að ljúka við FIMMTU peysuna, frá áramótum. Og ekki alveg liðnar ÞRJÁR vikur. Þetta er að fara úr böndunum hjá mér! Ég ætlaði ekki að byrja á fimmtu peysunni, fyrr en á sunnudag, en sat svo auðum höndum á laugardagskvöld, og vissi ekki hvað ég átti að gera við hendurnar á mér. Þá var ekki annað að gera, en fitja upp á ný, og nú er sú peysa að klárast, og ekki komið nema þriðjudagskvöld! 

En Úlfar minn er allavega kominn í nýja, flotta peysu, og önnur bíður tilbúin handa Jóa, tengdasyni, og svo er Svanur búinn að panta eina!  Ekki veit ég hvað verður um hinar, en ætli ég reyni ekki að selja sumar, en gefa aðrar. En maður hugsar ýmislegt, þegar maður er að prjóna heilu dagana. Ekki allt gáfulegt, en ég hef oft leitt hugann að því, hvað ég er mikil forréttindamanneskja, að geta setið inni í góðu, hlýju húsi, hafa nógan mat og allt, sem ég þarf. Að eiga góðan mann, sem umber alla mína galla, (oftast) yndisleg börn, barnabörn og langömmubörn. Og þó ég finni til með fólki, sem þarf að búa við stríð, hungur og ofbeldi, og mundi sannarlega hjálpa, ef ég gæti, þá þakka ég almættinu fyrir allt mitt líf. Eigingirnin lætur ekki að sér hæða. En nú ætla ég að fara að sofa, í mínu mjúka rúmi, hjá elsku karlinum mínum, sem er farinn að hrjóta fyrir löngu. Endilega skrifið athugasemdir, mér finnst svo gaman að lesa þær. ;) Góða nótt, Prjónakerlan.

 


Prjónaárið

Prjónaárið mikla er hafið!!! Byrjaði á því að klára peysu, en bolur og ermar höfðu legið hjá mér í nokkur ár. Þar fóru fyrstu þrír dagarnir. Svo byrjaði ég að fitja upp og komst nokkuð áfram með þessa fyrstu, en átti ekki nógan lopa til að klára. Þá byrjaði ég á annari, en sá fram á sama vandamál. Þá var ekki abnnað að gera, en hringja í Álafoss, og viti menn, 20 kg af lopa voru komin í hús eftir tvo daga, án þess að ég hefði þurft að fara út úr húsi!! Þið sjáið að ég tek þetta af fullri alvöru! Ég hef verið spurð, hvort ég ætli að fara að græða peninga, en mér finnst, eins og svo oft áður, peningar séu aldrei aðalatriði. Þetta er meira spurning um að ögra sjálfri mér. -- Nú eru liðnir nokkrir dagar síðan ég byrjaði á þessari færslu, fyrsta vikan að verða búin, og ég búin með tvær peysur. Ég talaði um að ögra sjálfri mér, kannski væri betra að tala um að setja sér markmið, og sjá svo til, hvort manni tekst það! Ég er sem sagt að prófa, hvað ég get verið staðföst, hvort ég get haldið þessu í heilt ár. Auðvitað fetur ýmislegt komið upp á, veikindi, ferðalög, já, allt mögulegt. En Að sakar ekki að reyna, ég þarf hvort sem er alltaf að hafa einhverja handavinnu, og því þá ekki þetta. Hvort ég sel eða gef er svo annað mál.


Nýja árið.

Jæja, þá!Aftur þurfti ég hjálp til að komast inn á þessa blessaða bloggsíðu! En nú held ég að ég geti ekki gleymt þessu aftur! Eins og ég reyndar held alltaf.Jól og áramót liðu með sóma, hér var fullt af fólki um jólin! Fimmtán, þegar mest var. Yndislegt að hafa þau öll hérna, en saknaði þeirra, sem ekki komust. Áramótin voru rólegri, við bara tvö, gömlu hjónin, og höfðum það bara notalegt. Kíktum aðeins út um glugga á raketturnar hjá nágrönnunum, en aldurinn er farinn að segja til sín þar, eins og annars staðar. Ekki alveg eins spennandi lengur. Svo lifnaði nú heldur yfir okkur á föstudag, þá birtist Maja okkar með Halla sinn og dæturnar tvær, og langömmustrákana mína þrjá! Það var yndislegt að fá að sjá þau öll, vantaði bara tengdasynina og svo auðvitað Kristófer prins, og Ingunni hans. Þau stoppuðu þónokkra stund, og nú eru Halli og Maja komin aftur vestur. Þá vantaði mig bara Badda fjölskyldu og Samúel og hans dönsku kærustu, en þau voru í Danmörku um jólin. En við sjáumst nú vonandi á nýja árinu. Og nú er allt að fara í sama farið aftur, virkir dagar taka við og maður hlýjar sér á góðum minningum. Ég er þó ekkert farin að tína niður jólaskrautið ennþá, þrettándinn er ekki fyrr en á morgun!! En þetta fer nú að verða nóg, best að fara að prjóna aftur - ég ætti kannski að segja ykkur frá áramóta-  nei ekki heiti, en áramóta-áætluninni minni. Ég ákvað semsé að prjóna eina lopapeysu á viku allt þetta ár!!! Þið skuLuð bara venja ykkur við að sjá mig með prjóna hvar og hvenær sem er!! Er að spá í Þorrablótið.... En nei, kannski ekki! Bless í bili, Prjónakerlingin.


Blogg númer eitt

jæja, þá er bloggið mitt komið af stað. Það hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig, ég er búin að vera í símanum að láta Gullu  mína hjálpa mér af stað. Hún hjálpaði mér að setja það upp í nýja ipadinum mínum, já, ég er að segja það!!! Ég fékk hann í jólagjöf frá öllum krökkunum mínum og þeirra fjölskyldum, og honum Úlfari mínum. Úlfar er nú ekki mjög hrifinn þegar ég hangi of mikið í tölvunni, en það er nú bara af því að hann saknar mín, þegar ég má ekkert vera að að tala við hann! Ég er nefnilega svo skemmtileg alltaf!!! En þetta verður nú að duga í bili. Kveðjur úr hálkunni. 


Prufublogg

Jæja, komið þið sæl! Þetta er nú bara prufublogg, sem er ekkert merkilegt! Ég er að fá hjálp til að setja það upp, og láta kenna mér að setja slóðina inn á Facebook, Það er Gulla mín, sem hjálpar mér. Ef þið lesið bloggið mitt, þá finnst mér alltaf gaman að fá athugasemdir við það sem ég skrifa. Ég mun ekki skrifa daglega, eða ekki á ég von á því. En þetta dugar víst sem prufa, svo ég hætti núna! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband